Ávöxtun Total Return Fund, sem er í stýringu hjá GAMMA, var 19,6% á nýliðnu ári. Það gerir um 14,8% raunávöxtun. Á vef Gamma segir að töluverð breyting hafi átt sér stað á fjármálamarkaði síðastliðið ár og ríkisskuldabréfin átt undir högg að sækja gagnvart öðrum fjárfestingarkostum.

„Ný fyrirtæki voru skráð á markað og útgáfa annarra aðila en ríkissjóðs tók við sér. Sést þessi þróun vel í Vísitölum GAMMA þar sem vísitalan yfir ríkisskuldabréf hækkaði um 3% síðastliðið ár á meðan vísitala skuldabréfa fyrirtækja hækkaði um tæplega 10% og hlutabréfavísitalan hækkaði um 32%. Fjárfestar hafa jafnt og þétt verið að auka hlutfall hlutabréfa, skuldabréfa fyrirtækja og fasteigna í söfnum sínum og teljum við að það megi sjá þá þróun áfram á nýju ári,“ segir á vef Gamma.