Það eina prósent landsmanna sem var með hæstu heildartekjurnar á  árinu 2012 áttu samtals 229,5 milljarða króna eignir. Hópurinn skuldaði 37,4 milljarða króna og því var hrein eign hans 192,1 milljarður króna. Þetta kemur fram í skattatölfræði Ríkisskattstjóra sem Kjarninn vísar til í dag.

Þar kemur líka fram að alls var hrein eign landsmanna allra, eignir að frádregnum skuldum, 2.075,5 milljarðar króna í lok árs 2012 og þvi átti efsta eina prósentið tæplega tíu prósent af hreinni eign landsmanna.

Skattatölfræðin byggir á skattaframtölum einstaklinga og sambýlisfólks eða hjóna og miða við stöðu gagna strax að loknum framtalsskilum vegna ársins 2012. Að baki tölunum eru um 246.600 manns.