Um síðustu mánaðamót voru 26.376 einstaklingar í alvarlegum vanskilum. Fleiri karlar en konur eru í þessari stöðu. Flestir þeirra sem eru í alvarlegum vanskilum eru á aldrinum 30 til 49 ára eða samtals 22,6% af þeim sem eru í þessum flokki og 18 og eldri. Staðan er með því versta sem sést hefur. Fjöldinn var örlítið meiri í apríl þegar 202 fleiri voru á vanskilalistanum.

Þetta kemur fram í upplýsingum Creditinfo, sem bendir á að alvarleg vanskil varði í flestum tilvikum kröfur sem eru komnir í milli- eða löginnheimtu og mörg þeirra fengið afgreiðslu dómstóla og sýslumannsembætta.

Samkvæmt upplýsingum Creditinfo eru 17.269 karlar í alvarlegum vanskilum en 9.107 konur. Staðan er verst á Reykjanesi. Þar er hlutfallið 16,4% samanborið við 9,7% á Suðurlandi og 9,5% á höfuðborgarsvæðinu. Á öðrum stöðum á landinu er hlutfall þeirra sem er í alvarlegum vanskilum lægra.

Athygli vekur þó að 4.031 einstaklingur í alvarlegum vanskilum er búsettur erlendis. Það jafnast á við tæpan þriðjung þeirra sem eru í sömu stöðu á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur í upplýsingum Creditinfo að 83.165 karlar eru í vanskilum, þar af 11.386 í alvarlegum vanskilum. Á móti eru 63.576 konur í vanskilum, þar af 2.986 í alvarlegum vanskilum. Þær eru nær allar einstæðar mæður eða 2.474 talsins. Einstæðir feður í vanskilum eru 2.080. Þar af eru 375 í alvarlegum vanskilum.

Þeir einstaklingar sem ná að greiða upp skráðar vanskilakröfur eru afskráðir af skránni um leið og slíkar tilkynningar berast. Nöfn einstaklinga sem ekki ná að greiða upp skráðar vanskilakröfur eru að hámarki birt í 4 ár.