Erna Kristjánsdóttir, markaðsstjóri Faxaflóahafna telur að í sumar munu 133 skemmtiferðaskip koma til Reykjavíkur. Er um að ræða aukningu frá síðasta sumri þegar 114 skip komu hingað til lands. Þá komu alls 98.676 farþegar til borgarinnar, en í ár er áætlað að fjöldinn verði rúmlega 127 þúsund talsins, sem gerir um 29% vöxt milli ára.

Þessa dagana er vertíð skemmtiferðaskipa í borginni að ná hámarki af því er Morgunblaðið greinir frá. Til að mynda hafi verið þrjú skemmtiferðaskip samtímis í Sundahöfn á miðvikudag. Voru samtals 5.500 farþegar í skipunum þremur, auk 2.200 manna áhafnar. Samanlögð stærð skipanna nemur vel yfir 200 þúsund brúttótonnum.

Síðan er væntanlegt við bryggju klukkan 8 í fyrramálið skipið Norwegian Jade, í sína fyrstu heimsókn. Skipið er um 93.558 brúttótonn, með 2.466 farþega og 1.076 manna áhöfn. Loks mun fyrsta skemmtiferðaskipið koma til Akraness sunnudaginn eftir viku, þegar franska skipið Le Boreal, sem er tæplega 11 þúsund brúttótonn að stærð leggur við bryggju.