„Ég hefði viljað sjá þetta gerast hraðar. En það er ekki langt síðan Atvinnumessan var haldin og vinna við þetta í fullum gangi,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Fram kemur í minnisblaði um stöðuna á innlendum vinnumarkaði í mars og skýrslu Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi sem lögð var fram á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að um 300 atvinnuleitendur hafi verið ráðnir til starfa í tengslum við verkefnið Vinnandi vegur. Vinnumálastofnun hefur nú þegar borist 270 samningar um ráðningar í störfum í tengslum við verkefnið er er verið að ganga frá fleiri samningum. Verkefnið var kynnt á Atvinnumessunni um miðjan mars.

Flestir voru samningarnir gerðir á höfuðborgarsvæðinu eða 116 samningar. Þá hafi rúmlega 30 samningar verið gerðir á Norðurlandi eystra sem og á Suðurlandi en í öðrum landshlutum hafi verið gerðir á bilinu 12 til 18 samningar.

Talsvert fleiri karlar en konur hafi því verið ráðnir til starfa í tengslum við verkefnið.

Atvinnuleysi mældist 7,1% í mars sem svarar til þess að 11.457 atvinnuleitendur hafi verið skráðir á atvinnuleysisskrá að meðaltali.