38,1% aðspurðra segja að það kæmi til greina að kjósa nýtt framboð hægrimanna sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, ef það byði fram í næstu Alþingiskosningum.

52,3% þeirra sem kusu Bjarta framtíð í síðustu kosningum sögðu framboðið koma til greina. 48,7% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningu sögðu framboðið koma til greina.

Nokkur munur var á afstöðu fólks til þess hvort það kæmi til greina að kjósa nýtt framboð hægrimanna eftir kyni, aldri, búsetu og heimilistekjum. Hlutfallslega fleiri karlar en konur sögðust vera jákvæðir fyrir framboðinu. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 47,4% karla að til greina kæmi að kjósa nýtt framboð hægrimanna í næstu kosningum, borið saman við 25,3% kvenna.

Þeir sem tilheyrðu elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) voru neikvæðari gagnvart framboðinu en aðrir. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu elsta aldurshópnum sögðu aðeins 19,5% að til greina kæmi að kjósa framboðið í næstu kosningum, borið saman við 42,2% þeirra sem tilheyrðu aldurshópnum 50 til 67 ára.

Þeir sem búsettir voru á höfuðborgarsvæðinu voru jákvæðari gagnvart framboðinu en þeir sem búsettir voru á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu og voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu sögðu 43,9% að til greina kæmi að kjósa framboðið, borið saman við 28,3% þeirra sem voru búsettir á landsbyggðinni.

Þeir sem tilheyrðu tekjuhæsta hópnum (800 þúsund eða hærri heimilistekjur á mánuði) voru jákvæðari gagnvart framboðinu en aðrir. Af þeim sem tóku afstöðu og tilheyrðu tekjuhæsta aldurshópnum sögðust 55,7% að til greina kæmi að kjósa framboðið í næstu kosninum, borið saman við 23,3% þeirra sem tilheyrðu tekjulægsta hópnum (undir 250 þúsund á mánuði).

Nokkur munur var á afstöðu fólks til framboðsins eftir því hvaða flokk það kaus í síðustu kosningum. Þannig kæmi framboðið til greina hjá 52,3% þeirra sem kusu Bjarta framtíð í síðustu kosningum, 48,7% Sjálfstæðisfólks, 42,7% Pírata, 35,9% Framsóknarfólks, 30,1% Samfylkingarfólks og 20,0% Vinstri-grænna.

Könnunin var framkvæmd dagana 28. mars til 1. apríl 2014 og var heildarfjöldi svarenda 960 einstaklingar, 18 ára og eldri.