38,1% aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins vilja slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið en 55,8% eru því andvíg. 6,1% tóku ekki afstöðu. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem SA gerði á meðal aðildarfyrirtækja. Þegar einungis er litið til þeirra sem tóku afstöðu vilja 40,6% slíta viðræðum en 59,4% eru því andvíg. 36,9% aðildarfyrirtækja SA vilja ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands við ESB en 63,1% eru því fylgjandi.

Þeir sem vilja efna til þjóðaratkvæðagreiðslu voru spurðir að því hvenær þeir vildu að hún færi helst fram. 85,2% svöruðu samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum. 8,6% svöruðu síðar á kjörtímabili Alþingis, 4,8% svöruðu samhliða næstu Alþingiskosningum sem verða vorið 2017 en 1,4% nefndu á öðrum tíma, t.d. þegar meirihluti væri fyrir aðild að ESB á Alþingi.

Könnunin hófst fimmtudaginn 20. febrúar en lauk á hádegi í dag. Könnunin var send til 1.896 stjórnenda, fjöldi svarenda var 703 og svarhlutfall því  rúm 37%. Framkvæmd könnunarinnar var í höndum fyrirtækisins Outcome-hugbúnaðar.