Rétt um prósentustigi munaði á milli minnsta flokksins sem komst inn í borgarstjórn og stærsta flokknum sem gerði það ekki, eða svipað og Kvennahreyfingin fékk. Þegar dreifing atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík sem fram fóru í gær eru skoðuð sést að rétt tæplega 6%, eða 5,97% atkvæða fóru til flokka sem ekki fengu fulltrúa.

Þar af fóru 3,2 prósentustig til Framsóknarflokksins, en Flokkur fólksins sem náði inn fékk um 4,3% atkvæða. Framsókn fékk 1.870 atkvæði meðan Flokkur fólksins fékk 2.509 atkvæði sem er það minnsta sem dugði til að komast inn í borgarstjórn. V iðskiptablaðið fjallaði um hvaða einstaklingar voru í baráttu sætum flokkanna.

Næst stærsta framboðið sem ekki hafði erindi sem erfiði var Kvennahreyfingin með 528 atkvæði. Þar næst á eftir kom Höfuðborgarlistinn með 365 atkvæði en miklar auglýsingar framboðsins hafa vakið athygli þó þær hafi ekki dugað til árangurs.

Samanlagt ná þessi þrjú framboð 2763 atkvæðum, eða sem samsvarar rétt tæplega 4,6% atkvæða, sem hefði að öllu óbreyttu dugað til að ná inn manni.

Hér má sjá hve mörg atkvæði fóru á þá flokka sem ekki náðu í borgarstjórn:

  • 3,2%, 1.870 atkvæði og enginn fulltrúi - Framsóknarflokkurinn
  • 0,9%, 528 atkvæði og enginn fulltrúi - Kvennahreyfingin
  • 0,6%, 365 atkvæði og enginn fulltrúi - Höfuðborgarlistinn
  • 0,4%, 228 atkvæði og enginn fulltrúi - Borgin okkar - Reykjavík
  • 0,3%, 203 atkvæði og enginn fulltrúi - Karlalistinn
  • 0,3%, 149 atkvæði og enginn fulltrúi - Alþýðufylkingin
  • 0,2%, 142 atkvæði og enginn fulltrúi - Frelsisflokkurinn
  • 0,2%, 125 atkvæði og enginn fulltrúi - Íslenska þjóðfylkingin