Hinn 1. janúar 2020 bjuggu 5,9% landsmanna í strjálbýli samkvæmt endurskoðuðum gögnum Hagstofu Íslands um þéttbýlisstaði og byggðakjarna, en með strjálbýli er átt við sveit eða byggðakjarna með færri en 200 íbúa. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar .

Fleiri karlar en konur bjuggu í strjálbýli í byrjun árs 2020 þótt munurinn sé ekki mikill. Þannig bjuggu 11.748 karlar í strjálbýli (6,3% af öllum körlum) en 9.885 konur (5,6% af öllum konum).

Þéttbýlisstaðir með 200 eða fleiri íbúa voru 63 hinn 1. janúar 2020. Langstærsti þéttbýlisstaðurinn var Stór-Reykjavík með 228.418 íbúa en þar er samfelld byggð frá Hafnarfirði norður í Mosfellsbæ. Næst stærsta þéttbýlið var í Keflavík og Njarðvík, þar sem bjuggu 19.311 íbúar, en á Akureyri og nágrenni bjuggu 18.893 íbúar hinn 1. janúar 2020.