Á árunum 2009 til 2016 hefur skattstofn tekjuskattskerfisins breikkað og farið úr því að minnihluti þjóðarinnar greiddi skattinn í að nú greiða 59% hennar tekjuskatt. Þriðja og efsta tekjuskattþrepið skilaði einungis um 3% af heildartekjuskattsgreiðslum til ríkisins, eða 4,93 milljörðum af alls 160,3 milljörðum. Það stendur í 31,8% og miðast við tekjur umfram 10,044 milljónir á ári.

Á síðasta ári skilaði fyrsta skattþrepið 150,3 milljörðum króna í ríkissjóð að því er Morgunblaðið hefur eftir Ríkisskattstjóra, eða um 93,6% tekjuskattsins. Milliþrepið skilaði svo tæplega 5,3 milljörðum króna en áður en það var afnumið síðustu áramót lagðist það á tekjur umfram 4,032 milljónir á ári. Hlutfall þess var því um 3,3% af heildartekjuskattinum.

Fór hæst í 33%

Hátekjuskatturinn var fyrst tekinn upp í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna árið 2009, en til að byrja með nam hann 32,1% á tekjur yfir 700 þúsund krónum á mánuði. Þá var fyrsta þrepið í 24,1% en síðan hefur skattkerfið breyst töluvert, í millitíðinni hækkuðu og síðan lækkuðu efri skattþrepin en fyrsta þrepið lækkaði niður í 22,68% í fyrra.

Hæst fór milliþrepið árið 2010 þegar það náði 27% en sama ár fór efsta þrepið upp í 33%. Á tímabilinu frá 2009 til 2016 fjölgaði verulega þeim einstaklingum sem greiða tekjuskatt, eða um 26,9%. Fór heildarfjöldinn úr 157.345 þúsund í 199.697 þúsund manns, en á sama tíma fjölgaði þjóðinni úr 320 þúsund í 338 þúsund.

Það þýðir að hlutfall þeirra af þjóðinni sem greiddi tekjuskatt árið 2009 var rétt undir helmingi, eða tæplega 49,3% í 59%.