Marel hagnaðist um 13,4 milljónir evra (2,1 milljarð króna) á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 32,2 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins námu tæplega 302 milljónum evra en voru tæpar 325 milljónir á fyrsta ársfjórðungi ársins 2019. Á rafrænum aðalfundi félagsins í þann 18. mars var tillaga um 44 milljóna evra (6,9 milljarða króna) arðgreiðslu til hluthafa samþykkt.

Mótteknar pantanir námu 352 milljónum og hafa aldrei verið hærri á fyrsta ársfjórðungi. Pantanabókin stendur í 465 milljónum. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í uppgjöri félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung, sem birt var í kvöld. Einnig kemur fram að á fjórðungnum nýtti Marel 600 milljónir evra af lánalínu í varúðarskyni. Í tilkynningu frá félaginu segir að fjármögnun félagsins sé tryggð til ársins 2025.

Í tilkynningunni segir að markaðsaðstæður hafi verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og núverandi COVID -19 heimsfaraldurs. Ennfremur segir að ekki sé vitað „hver fjárhagsleg áhrif COVID -19 munu verða á Marel."  Í tilkynningunni segir að Marel standi við vaxtarmarkmið sín til meðallangs - og langs tíma.

„Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit ), 18%  sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma. Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum."

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Í tilkynningunni segir að áætlaður vöxtur sé háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem verði í boði hverju sinni og því megi gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. „Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna," segir í tilkynningunni.

Yfirlýsing Árna Odds Þórðarson, forstjóra Marel, vegna uppgjörsins:

„Á sama tíma og við höfum tryggt samfellu í rekstri Marel og viðskiptavina okkar, höfum við lagt höfuðáherslu á öryggi og velferð starfsfólks og fjölskyldna þeirra. Við höfum þurft að aðlaga okkur að nýjum veruleika, sýna útsjónarsemi og nýta tæknilausnir í enn meiri mæli en áður. Margt af því sem við gerum nú, verður til varanlegra breytinga til góðs. Sem dæmi bjóðum við nú upp á fjarstuðning í þjónustu og uppsetningum á tækjum, settum á laggirnar Marel Live , sem er nýr stafrænn vettvangur til að kynna vörur og þjónustu félagsins, og héldum aðalfund á tilsettum degi þar sem hluthafar gátu tekið þátt og kosið rafrænt.

Fjárhagur og sjóðstaða félagsins er firnasterk. Framsækið vöruframboð og víðfeðmt sölu- og þjónustunet gera okkur kleift að sinna viðskiptavinum um heim allan á þessum umrótatímum. Mótteknar pantanir á fjórðungnum hafa aldrei verið hærri og nema 352 milljónum evra sem dreifðust vel á milli stærri verkefna, staðlaðra lausna og varahluta. Sterkt sjóðstreymi er að hluta til notað til að byggja markvisst upp öryggisbirgðir af íhlutum til framleiðslu og varahlutum til að tryggja stöðugt framboð og skamman afhendingartíma.

Tekjur námu 302 milljónum evra í fjórðungnum með 8,4% EBIT framlegð. Heimsfaraldurinn hefur aðallega haft áhrif á verkefni kjötiðnaðar með lakari nýtingu í framleiðslu í Kína, Þýskalandi og í Brasilíu vegna núgildandi varúðarráðstafana. Starfsemi í framleiðslu í Kína er nú komin upp í 90% afköst sem gefur góð fyrirheit um framhaldið, en of snemmt er að segja til um hvenær starfsemi verður með eðlilegum hætti í Þýskalandi og Brasilíu. Á sama tíma höfum við sýnt mikla útsjónarsemi í þjónustu við viðskiptavini. Enda þótt þjónustan hafi litast af heimsóknar- og ferðatakmörkunum, sáum við kröftugan vöxt í tekjum í sölu og afhendingu á varahlutum. Þjónustutekjur námu 41% af heildartekjum á fyrsta ársfjórðungi.

Kjúklingaiðnaðurinn, okkar stærsta og arðbærasta rekstrareining, fór inn í þetta ár með lága pantanabók. Sala á lausnum til kjúklingaiðnaðar var sérstaklega góð á fyrsta ársfjórðungi og förum við því inn í annan ársfjórðung með góða stöðu í pantanabók.

Á meðan fjölskyldur halda sig heima í skjóli fyrir heimsfaraldrinum snareykst spurn eftir matvælum í stórmörkuðum og netverslunum. Á sama tíma hefur neysla snarfallið á veitingastöðum. Þegar svo skyndilegar breytingar eiga sér stað þurfa fjölmargir viðskiptavinir okkar að aðlaga sig hratt að breyttu umhverfi, jafnt í framleiðslu og dreifingu, og fjárfesta í stöðluðum lausnum með skömmum afhendingartíma. Í samstarfi við Marel fá þeir fyrsta flokks viðhaldsþjónustu og styttri afhendingartíma á varahlutum og lausnum. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsmönnum Marel, viðskiptavinum okkar, birgjum og öðrum samstarfsaðilum fyrir þá miklu og góðu vinnu sem átt hefur sér stað á þessum fordæmalausu tímum. Í sameiningu tryggjum við að matvælaframleiðsla, ein mikilvægasta virðiskeðja heimsins, sé órofin.“