Á árinu 2017 má áætla að um 573 þúsund erlendir ferðamenn hafi komið á Norðurland, eða 29% af heildarfjölda erlendra ferðamanna sem komu til Íslands á árinu. Næturgestir voru 456 þúsund, sem gistu að meðaltali í rúmlega þrjár nætur, en samtals voru seldar gistinætur á síðasta ári 1.413 þúsund á Norðurlandi.

Það er um 11% af heildarfjölda gistinótta erlendra ferðamanna hér á landi. Þó nokkur munur er á fjölda þeirra sem kemur að sumri til annars vegar og vetri til hins vegar. Þetta kemur fram niðurstöðum rannsóknar sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf vann fyrir Markaðsstofu Norðurlands nú í apríl.

Í samantektinni er farið yfir fjölda erlendra ferðamanna á Norðurlandi á árunum 2010-2017, ferðamáta þeirra og fjölda gistinátta. Þessum upplýsingum er sömuleiðis skipt upp eftir svæðum á Norðurlandi. Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands segir mikilvægt að markaðssetja vetrarferðaþjónustu og bæta samgöngur.

„Áhugavert er að sjá að rétt tæplega 50% erlendra sumargesta á Íslandi komu á Norðurland en aðeins um 17% vetrargesta,“ segir Arnheiður. „Mikil þróun hefur átt sér stað síðastliðin ár í vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. Búið er að byggja upp gott úrval gisti- og veitingastaða, afþreying er fjölbreytt og samstarf svæða mikið.“

Arnheiður bendir á að munurinn á sumri og vetri sé enn nokkuð mikill og áfram verði að vinna í að minnka hann.

„Þessi þróun, ásamt gríðarlega sterkum seglum á svæðinu, skapar tækifæri fyrir ferðaþjónustuna til að verða heilsárs atvinnugrein en til þess að hægt sé að nýta tækifærin af fullum krafti er lykilatriði að samgöngur verði bættar, bæði á milli svæða og ekki síður að náttúruperlum okkar,“ segir Arnheiður.

„Líta þarf til þess að árstíðarsveiflan á okkar svæði er enn allt of mikil og því full nauðsyn á að klára þau verkefni sem þarf til að breyta þessari mynd en þau koma skýrt fram í öllum greiningum og stefnum sem gerðar eru á Norðurlandi. Á næstu vikum kemur út Áfangastaðaáætlun DMP fyrir Norðurland og má þar finna fjölmörg verkefni sem ferðaþjónustan og sveitarfélög á svæðinu kalla eftir að verði unnin.“