Tæp 70% vilja halda aðildarviðræðum við Evrópusambandið opnum fremur en að slíta þeim, samkvæmt niðurstöðum könnunar MMR sem gerð var dagana 25-28. Febrúar. Um 49,6% þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum vilja halda aðildarviðræðum við Evrópusambandið opnum, 41,3% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn. Niðurstöðurnar sýna að mikill meirihluti þeirra sem kusu flokka í stjórnarandstöðu vilja halda aðildarviðræðum við Evrópusambandið opnum.

Spurt var: „Hvort vilt þú að Ísland haldi opnum aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða slíti þeim formlega?" Svarmöguleikar voru: Aðildarviðræðum verði haldið opnum, Aðildarviðræðum verði slitið formlega og Veit ekki/ vil ekki svara. Samtals tóku 85,5% afstöðu til spurningarinnar og bárust svör frá 1013 einstaklingum.

Fréttablaðið birti í morgun niðurstöður könnunar sem gerð var fyrir 365 miðla en samkvæmt þeim niðurstöðum vilja 81,6 prósent landsmanna taka ákvörðun um aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í stað þess að láta þingmönnum eftir að útkljá málið í þingsalnum. Um 18,4 prósent vilja láta þinginu eftir að ákveða örlög aðildarumsóknarinnar.