Samanlagðar tekjur lögmannsstofanna BBA Legal, Logos, og Markarinnar voru rúmir 2,9 milljarðar og lækkuðu um 5,6%, og rekstrargjöld rúmir 1,9 milljarðar, sem var 2,9% lækkun. Samanlagt eigið fé þeirra var um 830 milljónir og jókst um 10% milli ára, og vegið meðaltal arðsemi eigin fjár var 84%, en var 96% árið áður.

Milli áranna 2015 og 2016 dróst afkoma helstu lögmannsstofa landsins verulega saman, fyrst og fremst vegna þess að stór mál tengd hruninu sem stofurnar unnu fyrir erlenda aðila voru loks að klárast. Styrking krónunnar hafði einnig áhrif, þar sem tekjur af téðum verkefnum, auk tekna frá Lundúnaskrifstofum BBA og Logos, voru í erlendum gjaldeyri. Samanlagður hagnaður lögmannsstofanna féll því um 44% milli áranna 2015 og 2016.

Afkomuna nú mætti túlka sem svo að greinin hafi fundið sér fótfestu í fyrra eftir samdráttinn 2016, þrátt fyrir hóflegan samdrátt í fyrra. Framkvæmdastjórar stofanna eru bjartsýnir á að árið í ár verði betra en síðasta ár.

Stöðugur rekstur hjá Mörkinni
Rekstur Markarinnar í fyrra var nánast óbreyttur frá árinu 2016, þegar kemur að öllum helstu uppgjörsstærðum. Tekjur hækkuðu um tæp 4%, eða um 18 milljónir, í 483 milljónir. Rekstrargjöld hækkuðu um 32 milljónir, 11%, og munaði þar mest um aukinn launakostnað, en gengistap nánast hvarf, úr 12 milljónum 2016 í rúma hálfa 2017.

Séu þessir þrír liðir teknir saman núlla þeir hver annan nánast út, tekjuaukningin og brotthvarf gengistapsins vega upp útgjaldaaukninguna. Hagnaður var því 125 milljónir, samanborið við 128 árið áður. Eigið fé var 132 milljónir og arðsemi eigin fjár var óbreytt í 95%, en hún hefur verið á því reiki síðan 2014. Það má því segja að Mörkin hafi náð jafnvægi eftir 37% samdrátt hagnaðar árið 2016.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .