Rannsóknasetur verslunarinnar áætlar að landsmenn verji um 603 milljónum króna til kaupa á mat- og dagvöru fyrir páskana í ár. Líklegt er að páskaegg og önnur sætindi vegi þar nokkuð þungt. Þá er áætlað að landsmenn kaupi áfengi fyrir páskana fyrir 243 milljónir króna, það er bæði páskabjór og aðrar veigar.

Samtals má því ætla að heildarfjárhæð í mat og drykk fyrir páskana nemi um 846 milljónum króna.

Í skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar um smásöluverslun kemur fram að nokkur samdráttur varð í sölu á mat og drykk í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Ástæðuna má rekja til þess að páskarnir voru í mars í fyrra en í apríl í ár.