Nær þrír af hverjum fjórum landsmönnum. eða 72%, eru með áskrift að Netflix á heimili sínu en það er aukning um 5 prósentustig frá fyrri könnun MMR um málið.

Svarendur í yngsta aldurshópi (18-29 ára) reyndust líklegust til að hafa aðgang að Netflix en 92% þeirra sögðu áskrift að streymisveitunni vera til staðar á heimili sínu, samanborið við 75% þeirra á aldrinum 30-49 ára og 73% þeirra 50-67 ára.

Af svarendum í elsta aldurshópi (68 ára og eldri) kváðust 17% hafa aðgang að Netflix á heimili sínu en 4% kváðu líklegt að áskrift yrði keypt á næstu 6 mánuðum. Svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu reyndust líklegri til að segja áskrift að Netflix vera til staðar á heimili sínu, eða 76%, heldur en þau af landsbyggðinni, þar sem hlutfallið var 65%.

Stuðningsfólk Viðreisnar, eða 84%, og Pírata, eða 80%, reyndust líklegust til að segja áskrift að Netflix vera til staðar á heimili sínu en stuðningsfólk Vinstri grænna eða 61% og Framsóknar, 64%, reyndust ólíklegust. Þá voru stuðningsfólk Flokks fólksins, eða 11%, og Miðflokksins, eða 6%, líklegust til að segja að áskrift að Netflix yrði keypt á heimili sitt á næstu 6 mánuðum.