45% Íslendinga eru ánægðir með fjölgun ferðamanna á Íslandi samkvæmt nýrri könnun Maskínu Á meðan segjast aðeins slétt 16% vera óánægð með fjölgunina en hátt í 40% falla á milli og svara í meðallagi. Hægt er að skoða niðurstöður könnunarinnar hér . Einnig kom fram í niðurstöðum könnunarinnar að um helmingur svarenda var hlynntur komugjaldi til Íslands.

Kjósendur Framsóknar hlynntir aðgangsstýringu

Einnig var spurt um hvort að svarendur væru hlynntir eða andvígir því að komið verði á aðgangsstýringu þannig að ákveðinn fjöldi ferðamanna fái að koma til landsins á hverju ári.

Um 47% svarenda voru hlynntur því á meðan á bilinu 29 til 30% sögðust vera því andvíg. Konur voru hlynntari takmörkun en karlar og munur sást á milli kjósenda ólíkra stjórnmálaflokka. Kjósendur Framsóknarflokksins voru til að mynda hlynntastir aðgangsstýringu.

Helmingur hlynntur komugjaldi

Síðast var spurt um afstöðu til komugjalds til landsins. Spurt var hvort svarendur væru hlynntir eða andvígir 1.000 krónu komugjaldi í hvert skipti sem ferðast er um Keflavíkurflugvöll til að byggja upp innviði fyrir ferðaþjónustu.

Hátt í helmingur svarenda segjast vera hlynnt komugjaldi á meðan 35% segjast andvíg því. Því hærri aldur, lengri skólaganga og meiri tekjur þeim mun hlynntari verða menn með slíku komugjaldi.

Svarendur könnunarinnar voru 847 manns úr Þjóðgátt Maskínu sem er þjóðhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Könnunin fór fram dagana 27. mars til 3. apríl.