WOW air flutti 218 þúsund farþega til og frá landinu í apríl eða um 173% fleiri farþega en í apríl árið 2016. Þá var sætanýting WOW air 88,2% í apríl í ár sem er nálægt tveggja prósentustiga aukning á milli ára. Sætanýtingin jókst þrátt fyrir 243% aukningu á framboðnum sætakílómetrum miðað við sama tímabil í fyrra.

Það sem af er ári þá hefur WOW air flutt um 752 þúsund farþega en það er 178% aukning farþega á sama tímabili frá árinu áður að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu. WOW air flýgur nú til 32 áfangastaða í Evrópu og Norður Ameríku og nýlega bættist Asía við en frá og með haustinu verður flogið til Tel Aviv fjórum sinnum í viku eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá .