Tap Icelandair Group eftir skatta nam 26,7 milljónum bandaríkjadala, eða 2,99 milljarðar króna, en var 18,3 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. EBITDA var neikvæð um 13,3 milljónir dala samanborið við 8,3 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi 2013. Heildartekjur jukust um 11%.

„Afkoma á fyrsta ársfjórðungi er í takt við væntingar stjórnenda félagsins. Áætlanir ársins gerðu ráð fyrir neikvæðri afkomu á fjórðungnum og að hún yrði lakari en var á sama tímabili á síðasta ári.  Skýrist það meðal annars af því að kostnaður tengdur auknu umfangi í starfsemi félagsins á háannatíma gjaldfærist að miklu leyti á fyrsta ársfjórðungi. Má þar nefna kostnað vegna auglýsinga og markaðssóknar, innleiðingu flugvéla og kostnað vegna bókana og umboðslauna sem tengjast háönn,“ segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri í tilkynningu.