Tæplega 36 milljónum króna hefur verið varið í ráðherrabíla það sem af er kjörtímabilinu. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur.

Mestu var varið vegna utanríkisráðherra, þá var keyptur Land Rover Discovery á rúmar 13 milljónir. Vegna fjármála- og efnahagsráðherra var keyptur Mercedes Benz E250 á rúmar 9,5 milljónir. Land Cruiser 150 VX var svo keyptur á 12,7 milljónir vegna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Kaupvirði bílanna var samtals 35.517.560 kr.

Í reglugerð um bifreiðamál ríkisins segir að leggja skuli ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna og til aksturs frá heimili að vinnustað. Slík bifreið skuli vera í eigu og rekstri ríkisins og henni skul að jafnaði ekið af sérstökum bifreiðarstjóra sem sinni jafnframt hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra.

Bifreiðakaup Stjórnarráðsins, að frádregnu söluandvirði eldri bifreiða, eru fjármögnuð af safnlið sem vistaður er í fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Ríkiskaup, fyrir hönd viðkomandi ráðuneyta, annaðist kauin á bifreiðunum. Í útboði var tekið tillit til öryggissjónarmiða sem sett eru af ríkislögreglustjóra og um­hverfissjónarmiða sem fram koma í stefnu um vistvæn innkaup og verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Ríkiskaup annaðist einnig sölu eldri bifreiða. Söluverð eldri bifreiðar vegna utanríkisráðherra var 3.020.203 kr., vegna fjármála- og efnahagsráðherra 1.511.000 kr. og 3.400.000 kr. vegna bifreiðar sem seld var við sameiningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.