Tæplega helmingur, eða um 40%, stúdenta við Háskóla Íslands hafa ekki enn fengið vinnu fyrir næsta sumar. Þetta kemur fram í tveimur könnunum sem Stúdentaráð Háskóla Íslands framkvæmdi og greindi Vísir frá helstu niðurstöðum. Yfir þúsund stúdentar tóku þátt í hvorri könnun fyrir sig.

Þar að auki segjast 11% svarenda ekki telja sig geta mætt útgjöldum um næstu mánaðarmót og óttast tæplega 20% svarenda að missa húsnæði sitt. Í samtali við Vísi segir Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, það vera skýlausa kröfu ráðsins að stúdentum verði veittur réttur til að fara á atvinnuleysisbætur. Þá bendi niðurstöðurnar til þess mikillar vanlíðan og talsverðs atvinnuleysis meðal háskólanema í sumar.

„Stúdentar eru ekki að geta nýtt sér nein úrræði stjórnvalda sem hafa komið fram með fjárhagslegri aðstoð. Hlutabótaleiðin er ekki að gagnast mörgum og þeir eru að missa vinnuna og svo eru 40% stúdenta líka ekki komnir með vinnu í sumar en eru ennþá að leita að vinnu. Þannig að þetta sýnir í rauninni bara frekar erfitt ástand, fjárhagslega og á vinnumarkaði, fyrir stúdenta eins og okkur grunaði," hefur Vísir eftir Jónu Þóreyju.