Þau undur og stórmerki urðu á alþjóðlegu viskíverðlaununum World Whiskies Awards á dögunum að tævanska viskíið Kavalan Solist hlaut verðlaunin fyrir besta viskí ársins 2015.

Í frétt Metro segir að viskíinu, sem heitir fullu nafni Kavalan Solist Vinho Barrique, hafi verið lýst sem óvenju mjúku á bragðið, líkt og mjólkursúkkulaði sem hafi verið blandað út í viskí, með eilitlu lakkrísbragði. Viskíið er eimað af King Car fyrirtækinu í Yilan sýslu í Tævan og er það látið eldast í bandarískum eikartunnum.

Skotar geta huggað sig við það að skoska viskíið Darkness! hlaut verðlaun sem besta kornviskíið, en hið japanska Nikka Teketsura Pure Malt hlaut verðlaun sem besta blandaða maltviskíið.