Sveitarfélagið Vogar hefur ekki enn afgreitt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 en skipulagsnefnd sveitarfélagsins frestaði nú í desember afgreiðslu umsóknarinnar fram í janúar 2023. Tvö ár eru liðin frá því að sótt var um framkvæmdaleyfi til Sveitarfélagsins Voga.

Landsnet segir í tilkynningu að öll lagaskilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Suðurnesjalínu 2 hafi verið fyrir hendi og önnur sveitarfélög á línuleiðinni, Grindavíkurbær, Hafnarfjarðarbær og Reykjanesbær, hafi gefið út framkvæmdaleyfi.

Landsnet bendir á að fyrri afgreiðsla Sveitarfélagsins Voga um höfnun á framkvæmdaleyfi hafi verið dæmd ólögleg af Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í október 2021.

„Þrátt fyrir það hefur lítið sem ekkert gerst í málinu og biðin eftir auknu raforkuöryggi á Suðurnesjum lengist því enn frekar og svæðið býr áfram við ófullnægjandi afhendingaröryggi rafmagns og takmarkanir á atvinnuþróun.“

Suðurnesjalína 2 í lofti er í skipulagsáætlunum Voga og hefur sveitarfélagið samið við Landsnet um bætur vegna línunnar þar sem hún fer yfir land í eigu sveitarfélagsins og tekið við greiðslu. Einnig er búið að semja við og greiða bætur til mikils meirihluta landeigenda á línuleiðinni.

Veki upp spurningar um rétt hinna sveitarfélaganna

Landsnet segir að tafirnar á framkvæmdinni veki upp spurningar um rétt hinna sveitarfélaganna sem nú þegar hafa samþykkt framkvæmdina. Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri Þróunar- og tæknisviðs hjá Landsneti segir þetta ólíðandi, aðföng hafi hækkað og kostnaður við undirbúning hleypur á hundruðum milljóna króna.

„Um fjórðungur fyrirspurna sem Landsnet hefur fengið um orkuafhendingu síðastliðin ár hafa verið vegna nýrra atvinnutækifæra á Suðurnesjum. Í öllum tilvikum var óskum um tengingu hafnað þar sem aðgengi að orku er takmarkað á svæðinu. Þetta ástand leiðir til tapaðra tækifæra fyrir sveitarfélögin til að þróa og byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf,“ segir Sverrir Jan.

„Við höfum áður bent á hversu mikil verðmæti tapast. Í skýrslu Frontier Economics frá því í vor var sýnt fram á að samfélagslegt tap vegna tapaðra tækifæra hleypur mjög fljótlega á milljörðum. Í greiningunni kom líka fram að virði eins nýsköpunarfyrirtækis á Suðurnesjum gæti verið á bilinu 4-5 milljarðar króna. Þá er ótalinn kostnaður okkar hjá Landsneti við undirbúning sem hleypur á hundruðum milljóna króna.“

Landsnet segir að lokum að Suðurnesjalína 2 sé ein mikilvægasta framkvæmdin í raforkukerfinu og að hún eigi að tryggja raforkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum. Stjórnvöld hafi sett landshlutann í forgang við uppbyggingu flutningskerfisins enda öryggi raforkukerfisins á svæðinu ábótavant og mikilvægt að bæta þar úr sem fyrst.