Umboðsmaður Alþingis áformaði að birta niðurstöðu frumkvæðisathugunar sem staðið hefur yfir á samskiptum innanríkisráðherra og fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu í þessari viku.

Umboðsmaður hefur hins vegar tilkynnt að honum hafi borist ábending í vikunni um tiltekið atriði í tengslum við athugunina sem nú sé unnið að því að kanna. Tekur hann sérstaklega fram að þar sé ekki um að ræða samskipti aðstoðarmanns ráðherra og fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Segir umboðsmaður að ekki sé hægt að birta niðurstöðuna í þessari viku vegna þessa. Þess sé hins vegar vænst að athugun á ábendingunni ljúki á næstu dögum og vonast umboðsmaður til þess að unnt verði að birta niðurstöðuna í næstu viku.