Miklar efasemdir fjárfesta um fjárfestingar á Íslandi og stöðu efnahagsmála hefur leitt til tafa á fjármögnun Marriott-hótels við Hörpu, að sögn Péturs J. Eiríkssonar, stjórnarformanns Situsar sem heldur um lóðaréttindi Hörpu. Félagið hefur verið í viðræðum við erlenda fjárfesta um að fjármagna og reisa hótel við tónlistar- og ráðstefnuhúsið. Rætt er við Pétur í Morgunblaðinu í dag.

Skrifa átti undir samning síðastliðið vor um byggingu nærri 270 herberga hótels við Hörpuna. Framkvæmdir áttu að hefjast á þessu ári og hótelið átti að opna árið 2015. Að sögn Péturs er ljóst að þessar áætlanir muni ekki ganga eftir. Hann segir það í fyrsta lagi vera gjaldmiðilinn sem fjárfestarnir hafa efasemdir um.