Seinkun varð á flugi 24 véla hjá Wow air síðustu tvo daga, en aðeins fjórum flugvélum seinkaði ekki. „Við vorum með bilaða flugvél og þurftum að reiða okkur á leiguflugvélar. Síðan olli þrumuveður í Baltimore miklum töfum,“ segir Birgir Jónsson, aðstoðarforstjóri Wow air, í samtali við Fréttablaðið .

Hann segir jafnframt að erfitt sé að eiga við vélarbilanir og að fyrirtækið geti ekki stjórnað veðrinu. „Við höfum verið að reyna að ná töfunum niður með því að leigja flugvélar og hraða flugi. Allt ætti að vera komið á áætlun á morgun,“ segir Birgir.

Greint er frá því að meðalseinkun vélanna hafi verið þrjár og hálf klukkustund. Minnst seinkun varð á flugi til Keflavíkur frá Kaupmannahöfn, en sú vél átti að lenda 14:25 en lenti 15:44. Mesta seinkunin varð á flugi frá París til Keflavíkur, þar sem lenda átti kl. 14:05 í Keflavík en vélin lenti ekki fyrr en kl. 23:52.