Endanlegt mat á virði skilyrts skuldabréfs sem nýi Landsbankinn mun gefa út til þrotabús gamla bankans liggur enn ekki fyrir. Mat á undirliggjandi eignum átti að vera ljóst fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2013. Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa Landsbankans, hafa orðið tafir á endanlegum frágangi.

Hann tekur fram að ekki hafi orðið nein breyting á málinu og býst við að niðurstaða muni liggja fyrir innan nokkurra vikna. Deloitte í London var falið að meta undirliggjandi eignasafn og leysa þannig úr ágreiningi um virði eignasafns sem flutt var frá gamla bankanum til hins nýja árið 2009. Virði skuldabréfsins getur orðið allt að 92 milljarðar og mun ríkið þá eignast allan hlut kröfuhafa, um 18%, í nýja bankanum að undanskildum 2% hlut sem samkvæmt samningum á að renna til starfsmanna nýja bankans.