Upphaflega átti að ganga frá ráðningu nýs útvarpsstjóra í lok janúar en nú er ljóst að það mun ekki ganga eftir. Í viðtali RÚV við Margréti Magnúsdóttur, starfandi útvarpsstjóri, í gær greindi hún frá því að nýr útvarpsstjóri yrði ekki ráðinn fyrr en í febrúar. Sagði hún að tafir hafi orðið í ráðningarferlinu vegna jólafrís.

Alls sótti 41 um stöðuna og í frétt RÚV kemur fram að kynjahlutfallið sé nokkuð jafnt. Í fyrsta skiptið verður listi yfir umsækjendur ekki birtur opinberlega. Mun ráðningarfyrirtækið Capacent hafa lagt það til við stjórnina. Hefur þetta verið harðlega gagnrýnt enda er stjórn RÚV, sem tekur ákvörðun um ráðningu næsta úvarpsstjóra, pólitískt skipuð.

Magnús Geir Þórðarson hætti störfum sem útvarpsstjóri um miðjan nóvember í fyrra þegar hann var skipaður Þjóðleikhússtjóri. Hafði Magnús Geir gegnt starfinu frá árinu 2014. Síðan Magnús Geir hætti hefur Margrét Magnúsdóttir gegnt stöðunni.

Í tilkynningu frá stjórn RÚV þann 10. desember sagði: „Stjórn RÚV ræður útvarpsstjóra. Á næstu vikum verður farið yfir umsóknir og hefur stjórn fengið ráðningafyrirtækið Capacent til að hafa umsjón með því verkefni. Stjórn RÚV stefnir að því að ganga frá ráðningu nýs útvarpsstjóra í lok janúar 2020.“