Það kann að styttast í að fasteignaverðsbólan í Taiwan springi að mati Global Property Guide. Samkvæmt upplýsingum Sinyi Real Estate fasteignasölufyrirtækisins í Taipei hækkaði nafnverð fasteigna um 19,97% á fyrsta ársfjórðungi eða 18,46% að raunvirði. Var Taiwan með þriðju mestu hækkun fasteignaverðs á tímabilinu samkvæmt úttekt Global Property Guide. Aðeins Hong Kong og Singapore voru með meiri hækkanir.

Taiwan varð fyrir barðinu á efnahagskreppunni í heiminum á fyrsta ársfjórðungi 2009. Síðan hefur fasteignaverð verið á stöðugri uppleið. Það eru einkum batnandi efnahagssamvinna við Kína og lægstu vextir sem um getur sem drífa eftirspurnina eftir fasteignum í Taiwan. Stjórnvöld í landinu reyna af öllum mætti að koma í veg fyrir að fasteignaverðsbólan springi m.a. með aðgerðum í gegnum skattakerfið.