Óánægja er hjá rútufyrirtækjum vegna útboðs Sambands sveitarfélaga (SSS) á Suðurnesjum á akstri hópferðabifreiða á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en sveitafélögin á Suðurnesjum tóku við sérleyfisakstri á Suðurnesjum fyrir nokkrum árum með samningum við Vegagerðina og samþættu almenningssamgöngur á vegum sveitarfélaga.

Samið var við Kynnisferðir sem lengi hafa annast akstur á milli flugstöðvarinnar og Reykjavíkur. Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að Allrahanda hefur síðustu ár ekið leiðina í samkeppni við Kynnisferðir, þótt SSS hafi reynt að koma í veg fyrir það. Lagagrundvöllur einkaleyfis sveitarfélaga var styrktur fyrir um ári og endurnýjaði Vegagerðin samninga við SSS.

Nú hefur SSS auglýst útboð á akstri til flugstöðvarinnar og hyggst bjóða út annan akstur í byrjun næsta árs. Í Morgunblaðinu er haft eftir Kristjáni Daníelssyni, framkvæmdastjóra Kynnisferða, að fyrirtækið hafi byggt upp flugrútuna frá árinu 1976 verið með sérleyfi á leiðinni í mörg ár. Reksturinn hafi gengið upp þrátt fyrir samkeppni á leiðinni.

Þá kemur einnig fram að sveitafélögin á svæðinu hyggist taka að lágmarki 35% af fargjaldinu til eigin ráðstöfunar.