Yfirtaka ríkisins á Sparisjóðnum í Keflavík hefur haft mikil áhrif á fjárhag tveggja stærstu stofnfjáreigenda í sjóðnum, Lífeyrissjóðsins Festu og Kaupfélags Suðurnesja, sem tapa yfir 3,1 milljarði króna á falli sjóðsins. Kaupfélag Suðurnesja tapaði um 1,4 milljörðum króna á síðasta ári sem skýrist fyrst og fremst af niðurfærslu á verðbréfum. Þar vega stofnfjárbréf í SpKef þyngst en kaupfélagið átti innan við 7% hlut í næststærsta sparisjóði landsins.

"Þarna er stór eign farin út og eftir standa skuldbindingar. Það er verkefni að vinna úr því," segir Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Kaupfélags Suðurnesja, sem áætlar að beint tap kaupfélagsins vegna falls SpKef nemi einum og hálfum milljarði króna.

Allur verslanarekstur kaupfélagsins sjálfs fer í gegnum dóttur- og hlutdeildarfélög þess. Kaupfélagið heldur m.a. utan um ríflega helmingshlut í matvöruverslanakeðjunni Samkaup. "Samkaup hafa verið mikilvægasta eign kaupfélagsins og hefur fall SpKef ekki áhrif á Samkaup," bendir Ómar á. Innan vébanda Kaupfélags Suðurnesja eru yfir 3.000 félagsmenn á félagssvæði sem nær yfir Suðurnesin og suðurhluta höfuðborgarsvæðisins að Kópavogi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.