Stjórn Icelandair Group mun fjalla um það í janúar nk. hvort áfram verði hugað að skráningu félagsins erlendis. Þetta kom fram í svari Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Icelandair Group, á uppgjörsfundi félagsins í síðustu viku. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir um ári síðan að stefnt væri að tvíhliða skráningu í annarri kauphöll á Norðurlöndunum til viðbótar núverandi skráningu í Kauphöllina hér á landi. Icelandair Group staðfesti þetta í tilkynningu í febrúar sl.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að stefnt hafi verið á skráningu félagsins í Noregi næsta vor. Björgólfur sagði þó á uppgjörsfundinum að raunhæft væri að skrá félagið erlendis haustið 2012, þ.e. ef stjórnin tæki þá ákvörðun að halda ferlinu áfram.