Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs tók í gær hlutabréf Apple af lista yfir þau fyrirtæki sem hann mælir sérstaklega með að fólk kaupi. AP-fréttastofan segir ástæðuna þá að nýsköpunarandinn virðist hafa yfirgefið Apple eftir að fyrirtækið setti fyrstu iPad-spjaldtölvuna á markað árið 2010 enda engar jafn byltingakenndar vörur litið dagsins ljós síðan þá. Sömuleiðis er bent á að iPhone 5-sími Apple hafi ekki selt eins vel og vænst var. Hlutabréf Apple hafa verið í þessari úrvalsdeild Goldman Sachs síðan í desember árið 2010.

AP-fréttastofan segir að þetta endurspeglist í gengi hlutabréfa Apple sem hafi farið úr 705,7 dölum á hlut þegar iPhone 5-síminn kom á markað í september í fyrra og niður í 427,9 dali á hlut. Lækkunin nemur 40%.