Líklegast þykir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eða Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra taki við dómsmálaráðuneytinu þegar það verður flutt frá innanríkisráðherra á næstu dögum. Flutningurinn kemur til þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra baðst und­an þeim skyld­um sín­um er varða dóms- og lög­reglu­mál í kjölfar þess að Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður hennar, var ákærður í lekamálinu svokallaða. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að þessi lausn þyki heppilegri nú en sú að búa til nýtt ráðuneyti. Nýtt ráðuneyti verði þó líklega ofan á síðar meir, að því er segir í blaðinu.

Í Fréttablaðinu segir að um málamiðlun sé að ræða því Framsóknarmenn geti illa sætt sig við að vera einungis með fjóra ráðherra, gegn sex ráðherrum sjálfstæðismanna í tíu manna ríkisstjórn. Þegar og ef ráðherrum verði fjölgað muni hann koma úr röðum framsóknarmanna.