*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 17. maí 2013 14:26

Taka myndir af Íslandi í 360°

Bíll mun aka um helstu ferðamannastaði landsins á næstu dögum. Já ætlar að bjóða upp á svipaða þjónustu og Google.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Já sem rekur meðal annars upplýsingavefinn Já.is, mun á næstu dögum hefja 360° myndatökur við helstu kennileiti og ferðamannastaði á Íslandi. Sérútbúinn umhverfisvænn Toyota Yaris Hybrid verður notaður við myndatökur vegna Já 360°. Íslenska tæknifyrirtækið RP Media ehf. annast myndatökurnar og hefur þróað sérstakan hugbúnað vegna verkefnisins. Um er að ræða myndatökur sem gera Já kleift að bjóða upp á sambærilega þjónustu og Google hefur gert með svokölluðum Street View myndum. En slíkar myndir má sjá á kortavef Google af fjölmörgum stöðum í heiminum. Þó ekki frá Íslandi. 

Myndatökurnar fara fram í nokkrum áföngum. Byrjað verður á taka Já 360° myndir í  miðborg Reykjavíkur og þekktum kennileitum á höfuðborgarsvæðinu. Fljótlega verða einnig teknar myndir í 360° við margar af helstu náttúruperlum landsins. Á endanum er gert ráð fyrir að sem flestir fjölfarnir staðir á Íslandi verði kortlagðir með þessum hætti.

Hægt að skoða Ísland í 360°

Myndefnið verður sett inn á vef Já.is og geta netverjar skoðað þær þar. Á komandi vikum og mánuðum verður unnið í því að samþætta  Já 360° við kortavefi Já og setja myndir inn jafnóðum og þær berast. Myndirnar verða líka settar á Planiceland.com, en það er vefur sem Já rekur fyrir erlenda ferðamenn sem hafa hug á að sækja Ísland heim. 

Fram kemur í tilkynningu að Já hefur nú þegar haft samband við Persónuvernd í þeim tilgangi að upplýsa stofnunina um áætlanir félagsins. Andlit fólks munu almennt ekki þekkjast á Já 360° myndum en í einhverjum tilfellum verður það sjálfsagt hægt. Ef að svo ber undir verða andlitin skyggð ef þess er óskað. Hægt verður að fylgjast með ferðum bílsins á Já.is. Toyota ætlar einnig að segja frá ferðum hans á sínum samfélagsmiðlum.

Já 360° myndatökurnar voru kynntar í húsnæði Toyota í Kauptúni í Garðabæ í morgun. Lítill tilraunavefur er kominn í loftið á slóðinni http://ja360.is/