Ólafur Margeirsson, hagfræðingur, segir að krafan um 3,5% raunávöxtun lífeyrissjóða valdi því að vaxtastig í landinu haldist hátt.

„Vegna lögbundinnar kröfu kerfisins um of háa raunvexti er alvarlegur skortur á framboði íslensks fjármagns. Vaxtakjörin eru langt fyrir ofan það sem íslenskir aðilar geta borgað og einmitt þess vegna sækjast Íslendingar svo mjög í erlent fjármagn: Hið íslenska er of dýrt vegna ávöxtunarkröfu og stærðar lífeyriskerfisins. Þetta mun aldrei ganga til langs tíma," skrifar Ólafur.

Hann segir að jafnvel þótt allt fjármagn sem Íslendingar þyrftu kæmi erlendis frá án nokkurrar gengisáhættu þýddi það að viðskiptajöfnuður yrði aldrei sjálfbær vegna neikvæðra þáttatekna – nema allt fjármagnið færi í útflutningsgreinar.

„Og þegar viðskiptajöfnuður er neikvæður nægilega lengi þarf að leiðrétta hann með raungengislækkun. Sé engin flotkróna verður slíkt að gerast í gegnum verðlag og nafnlaun, þ.e. hlutfallslega við viðskiptalönd. Slíkt er ekki hægt til langs tíma. Það var, er og verður aldrei möguleiki á því að hagkerfi Íslands standi í lappirnar, sama hver myntin er, nema lífeyriskerfið verði tekið í gegn," segir Ólafur.

Hann segir að mjög oft er fljótandi íslenskri krónu kennt um háa vexti á Íslandi. Vegna þess að myntin sé svo lítil séu fáir til í að eiga viðskipti með hana nema fyrir hátt áhættuálag í formi hærri vaxta. „Þetta er vafasöm fullyrðing," segir Ólafur.

Ólafur skrifaði grein í Viðskiptablaðið sem birt er í heild hérna undir skoðani r.