Nýja lyfjafyrirmælakerfið heitir Therapy 7 og er hannað til að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að ákvarða og vinna með lyf fyrir sjúklinga. Læknar geta nú ávísað eftir virku innihaldsefni lyfs, einnig þekkt sem generískar ávísanir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Kerfið gerir það einnig mögulegt að fylgjast með þeim lyfjum sem sjúklingur á að taka bæði fyrir og eftir innlagnarlegu á sjúkrastofnun. Nýtt lyfjakort styður við það og leyfir að ítarlegar upplýsingar eru sendar til næsta meðferðaraðila og sjúklings. Til að geta stigið þessi framfaraskref var klínískur lyfjagagnagrunnur þróaður í samstarfi milli Sjúkrahússins á Akureyri og Dojo Software Akureyri, eiganda og þjónustuaðila Therapy. Þessi lyfjagagnagrunnur er sá nákvæmasti á Íslandi, þar sem hann byggir á áralangri traustri reynslu starfsfólks Dojo Software í svipuðum verkefnum í Danmörku, Hollandi og Bretlandi,“ segir í tilkynningunni.

Framkvæmdastjóri lækninga og handlækningasviðs, Sigurður E Sigurðsson segir: „Þessi uppfærsla á kerfinu er liður í vegferð SAk að þróun lyfjaumsýslu til að stuðla að frekara öryggi sjúklinga og aukinni skilvirkni í starfi.“