Frá og með 19. janúar breytti Stofnfiskur hf. nafni sínu í Benchmark Genetics Iceland hf. en í tilkynningu félagsins er nafnabreytingin sögð liður í því að sameina vörumerki innan móðurfélagsins Benchmark Holding plc group. Nafnið Stofnfiskur verður þó áfram notað fyrir laxastofn fyrirtækisins svo og kynbótaverkefni þess á laxi sem starfrækt er á Íslandi.

Fyrirtækið sem nú heitir Benchmark Genetics Iceland var stofnað árið 1991 og hefur verið framleiðandi á kynbættum laxahrognum til laxeldisiðnaðarins á Íslandi svo og allri Evrópu og Chile, en starfsemi þess er staðsett á suðvesturlandi.

Fyrirtækið er með klakeldisstöðvar við Kalmanstjörn sunnan við Hafnir og í Vogum þar sem einnig hrognaframleiðsla fyrirtækisins fer fram. Seiðastöðin er staðsett í Kollafirði. Fyrirtækið framleiðir einnig hrognkelsaseiði í stöð sinni í Höfnum, sem eru notuð til að halda laxalús niðri í laxeldi í sjó.

Benchmark Genetics Iceland flutti í nýjar höfuðstöðvar í byrjun árs að Bæjarhrauni 14 í Hafnarfirði, en nafnabreytingin fylgir eftir yfirtöku breska fyrirtækisins Benchmark Holding plc frá árinu 2014 á Stofnfiski. Þrátt fyrir að nafn fyrirtækisins hafi breyst er kennitalan, skipulag fyrirtækisins svo og eignarhald óbreytt að því er segir í tilkynningu.

Jónas Jónasson, framkvæmdarstjóri Benchmark Genetics Iceland segir skrefið núna vera hluta af stefnu Benchmark við uppbyggingu á sterku og sameinuðu vörumerki.

„Við munum ennþá halda í Stofnfisks nafnið fyrir laxastofninn okkar sem við framleiðum hér á Íslandi þar sem að við vitum að það skiptir miklu máli fyrir okkar viðskiptavini,” segir Jónas.

Klakstöð og Hrognahús Vogavík - Benchmark Genetics Iceland (Stofnfiskur)
Klakstöð og Hrognahús Vogavík - Benchmark Genetics Iceland (Stofnfiskur)
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Byggja nýtt hrognhús og seiðastöð

Benchmark Genetics Iceland hyggst halda áfram að vaxa og framundan eru sagðar miklar fjárfestingar í áframhaldandi uppbyggingu á starfsemi félagsins á Íslandi. Verið er að byggja nýtt hrognahús við stöð félagsins í Vogavík sem verður tilbúin seinna á þessu ári. Samhliða því verður einnig farið í byggingu á nýrri seiðastöð á sama svæði.

„Ég er spenntur að leiða fyrirtækið inn í þetta nýja tímabil vaxtar og þróunar. Nafnabreytingin er tákn um þau skref sem við höfum tekið í aukningu á framleiðslu og nýsköpun síðan við sameinuðumst Benchmark í nóvember 2014,” segir Jónas.

„Núna erum við spennt að klára framkvæmdir við nýtt hrognahús sem verður tilbúið í júní á þessu ári. Stöðin verður útbúin með nýjustu tækni og mun gera okkur kleift að auka framleiðsluna allan ársins hring á hrognum til viðskiptavini okkar um allan heim. Þar á meðal nýju laxeldisfyrirtækin í landeldi sem er í mikilli sókn í heiminum.”

Benchmark Genetics sameinar fyrirtækin Benchmark Genetics Norway AS, Benchmark Genetics Iceland HF, Benchmark Genetics Chile, Spring Genetics og Benchmark Genetics Shrimp, sem eru öll hluti af bresku samstæðunni Benchmark Holdings plc.

Fyrirtækið sinnir kynbótum á Atlantshafslaxi, tilapiu, rækju og hrognkelsum, sem eru framleidd í Noregi, Íslandi, Chile, Bandaríkjunum, Brasilíu og Kólumbíu og reka kynbótaverkefni fyrir fiskeldis iðnaðinn.