Það ríkir ekki lengur samkeppni í flugi milli Íslands og höfuðborgar Frakklands að því er Túristi greinir frá.

Eftir fall WOW air í fyrra þá fjölguðu stjórnendur fransk-hollenska flugfélagsins Transavia ferðunum til Íslands frá París. Auk þess hóf félagið flug hingað frá Amsterdam og nú í sumar bættust við vikulegar brottfarir frá frönsku borginni Nantes.

Nú er aftur á móti ekki lengur hægt að bóka flug með Transavia frá París til Íslands en ekki fást skýringar frá félaginu á þessari breytingu. En eins og staðan er núna þá er Icelandair eitt um áætlunarferðirnar héðan til Parísar.

Það er í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem félagið fær enga samkeppni á þeirri flugleið yfir sumarmánuðina. Fyrst frá Iceland Express, svo frá WOW og að lokum Transavia.

Forsvarsmenn Play boðuðu reyndar flug til Parísar þegar þeir sviptu hulunni af áformum félagsins í nóvember í fyrra.