Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur samþykkt aðgerðir til endurskipulagningar á efnahag bæjarins og Reykjaneshafnar. Hefur bærinn fengið lánsloforð frá Lánasjóði sveitarfélaga um 3,6 milljarða króna lán sem notað verður til að endurfjármagna skuldir bæjarins.

Lánsloforðið byggir á því skilyrði að markmiðum aðlögunaráætlunar fyrir árin 2017 til 2022 verði náð og að samkomulag við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga liggi fyrir.

Húsnæði sem sinna ekki grunnþjónustu aðskilið frá eignarhaldsfélagi

Ákveðið hefur verið eftir viðræður við kröfuhafa á grunni áætlunarinnar að skipta Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf. upp í tvö félög. Annað mun halda utan um þau félög sem tengjast grunnþjónustu sveitarfélagsins en hins vegar félag sem heldur utan um eignir sem ekki tengjast grunnþjónustunni.

Verða skuldir beggja félaga endurfjármagnaðar, og gerðir við þau leigusamningar, annars vegar til ársins 2038 og hins vegar til 2024, sá styttri til félagsins sem ekki sér um grunnþjónustu.

Hafi bærinn ekki náð niður fyrir lögbundið skuldaviðmið í árslok 2022 getur sveitarfélagið nýtt sér sölurétt á öllu hlutafé í félaginu EFF2 sem heldur utan um síðarnefnda félagið, til kröfuhafa félagsins.

Lánið frá Lánasjóði sveitarfélaga verður svo nýtt til að endurlána þá fjárhæð til Reykjaneshafnar sem mun greiða upp skuldir hafnarinnar og þannig verði höfnin með mun hagstæðari kjör á sínum skuldum. Hluti skulda hafnarinnar verður svo endurfjármagnaður með veði í lóðum hafnarinnar.