Ný rannsókn Pew Research Center spurði 2.000 manns í Bandaríkjunum hvað þeim fyndist um framtíðina - og sérstaklega hvort þau teldu líklegt að vélmenni, forrit og annars konar vélbúnaður gæti alfarið tekið við af vinnandi fólki fyrir árið 2065.

Niðurstöður könnunarinnar eru þær að meirihluti Bandaríkjamanna, eða um 65% þeirra, er eftir allt saman þeirrar skoðunar að vélmennin muni taka við af allflestum störfum mannkynsins fyrir árið 2065.  Þá var sama fólk spurt hvort þeim fyndist líklegt að vélmenni kæmu til með að taka við nákvæmlega þeim störfum sem aðspurðir höfðu sér til atvinnu.

Svör aðspurðra endurspegluðu hverfulleika mannsins, en 80% aðspurðra töldu ólíklegt að svo færi, og að störf þeirra yrðu að mestu leyti óbreytt innan 50 ára frá deginum í dag. Þá voru aðeins um 6% handviss um að þeirra starf myndi örugglega hverfa úr höndum mannfólksins.

Ljóst er að Bandaríkjamenn eru á sama tíma handvissir um að störf framtíðarinnar verði að mestu í höndum vélmenna og forrita, þrátt fyrir að fæstir telji að sín eigin störf verði tekin yfir af fyrrnefndum vélmennum - sem myndar óhjákvæmilega með sér ákveðna þversögn.