Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að taka verði launahækkanir forstjóra og millistjórnenda alvarlega, en samkvæmt nýju Tekjublaði Frjálsrar verslunar hækkuðu laun forstjóra um 13% og næstráðenda um 35-40% milli ára á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um tæp 6%.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar segir Gylfi að launahækkanirnar séu ekki í samræmi við umræðu vetrarins um ábyrga efnahagsstjórn. Í vetur hafi verið lagt upp með leið sem fæli í sér ábyrgð á efnahagsmálum. Hann segir að slík leið hefði átt að vera leið jafnaðar, þar sem allir byggju við sambærilega launaþróun.

Hann segir jafnframt að launaþróun sé farin að minna á þensluárin fyrir hrun. Í samtali við fréttastofu Bylgjunnar segir Gylfi: „Já, það er æði margt sem er farið að minna á það. Ég held það sé rétt að minna á að slík tímabil hafa ekkert endað sérstaklega vel.“

Að sögn Gylfa munu aðildarfélög ASÍ hafa launahækkanirnar í huga þegar gengið verður til næstu kjarasamninga.