KKV Investment Management Ltd., dótturfélag Kvika Securities Ltd., sem er dótturfélag Kviku banka í Bretlandi, hefur náð samkomulagi um að taka við stýringu breska veðlánasjóðsins SQN Asset Finance Income Fund. Stýring sjóðsins var boðin út í febrúar og hefur samkomulag á milli stjórnar sjóðsins og KKV nú verið undirritað en það er þó óskuldbindandi. Gert er ráð fyrir því að KKV taki við sjóðnum í júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku.

SQN Asset Finance Income Fund var stofnaður árið 2014 og er lánasjóður sem veitir veðtryggð lán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja að mestu í Bretlandi, Evrópu og Bandaríkjunum," segir í tilkynningu frá Kviku en eignir sjóðsins eru í dag metnar á 390 milljónir punda eða um 70 milljarða króna og eru hlutabréf hans skráð á aðallista kauphallarinnar í London .

„Eftir að hafa notið mikilla vinsælda meðal fjárfesta hefur sjóðurinn átt undir högg að sækja undanfarið vegna erfiðleika við úrvinnslu ákveðinna eigna og hefur því verð hlutabréfa sjóðsins verið umtalsvert undir útgefnu gengi eigna hans (e. Net Asset Value ).  Hlutverk KKV við stýringu sjóðsins mun því, til skemmri tíma lítið, einkum miða að því að endurskipuleggja og hámarka virði eigna sjóðsins, ásamt því að vinna úr áhrifum af COVID -19 á útlán sjóðsins."

KKV er nýstofnað félag sem sérhæfir sig í eignastýringu á sviði sérhæfðrar lánastarfsemi. Koma þau Dawn Kendall og Ariel Vegoda til með að leiða starfsemi félagsins. Dawn og Ariel hafa áratuga reynslu af eignastýringu á breskum markaði, en þau voru áður starfsmenn SQN Capital Management , núverandi sjóðastýranda sjóðsins. Auk þeirra munu um 15 starfsmenn SQN ganga til liðs við KKV þegar félagið tekur formlega við stýringu sjóðsins.

KKV verður rekið sem sjálfstætt eignastýringarfélag og munu Dawn Kendall , Ariel Vegoda og aðrir stjórnendur eignast minnihluta í félaginu," segir í tilkynningunni. „Í stjórn félagsins munu setjast f.h. Kviku Securities , Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri, Helgi Bergs, framkvæmdastjóri Kvika Advisory , dótturfélags Kviku Securities , og Ragnar Dyer , framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kviku banka."