Nýir eigendur ferðaþjónustufyrirtækisins Fararsniðs hyggjast halda fast í einstakt yfirbragð sælkeraferðanna svokölluðu til Ítalíu sem það er þekkt fyrir ásamt því að auka framboðið og fjölbreytileikann.

Ásta Björk Sveinsdóttir, annar kaupendanna, heillaðist að eigin sögn af nálgun hjónanna þegar hún fór að kynna sér fyrirtækið og ferðirnar, þrátt fyrir að hafa aldrei farið í slíka ferð sjálf.

„Mér fannst þau gera þetta svo fallega. Það er ekkert stress, ekkert verið að hlaupa frá einum stað til annars, heldur fær hver og einn að njóta sín í rólegheitum. Þú mátt stoppa í fimm mínútur eða klukkutíma á hverjum stað. Það er enginn að ýta á eftir manni, engin pressa. Við ætlum að reyna að hafa það meginþemað hjá okkur.“

„Hélt næstum líkræðu yfir fyrirtækinu“

Eftir að hjónin Jón Karl Einarsson og Ágústa Helgadóttir – stofnendur Fararsniðs – ákváðu að setjast í helgan stein auglýstu þau fyrirtækið til sölu. Þegar ekkert varð af því fóru þau í síðustu ferðina síðasta haust með það í huga að þetta yrði síðasta sælkeraferðin og hugðust í kjölfarið leggja fyrirtækið niður.

„Maður hélt næstum líkræðu yfir fyrirtækinu og taldi að nú værum við að kveðja síðasta hópinn,“ segir Jón Karl.

Í lok nóvember höfðu Ásta Björk og Guðrún Magnúsdóttir meðeigandi hennar síðan samband, og stefna nú á að fara sína fyrstu ferð sem nýir eigendur í júní.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu og geta áskrifendur lesið fréttina í heild sinnihér.