Hjónin Laufar Sigurður Ómarsson og Ásthildur Sigurgeirsdóttir hafa tekið við veitingarekstri í Ráðhúsi Reykjavíkur. Áður ráku þau hið rómaða veitingahús Við Tjörnina. Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að hjónin ætla að stórauka þjónustu við starfsmenn Reykjavíkurborgar og gesti Ráðhússins en það er einn fjölsóttasti ferðamannastaður borgarinnar. Þau taka einnig yfir rekstur mötuneytis fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar og hyggjast reka það að mestu með óbreyttu sniði.

Nýja veitingahúsið opnar 1. febrúar og mun líklegast heita Tjörnin. Það mun verða rekið í húsnæðinu sem snýr út að Tjörninni en þar er mikil nálægð við fuglalíf og vatnið. „Staðurinn býður upp á alveg ótrúlega fallegt útsýni yfir Tjörnina. Það að geta setið alveg við Tjörnina, notið góðra veitinga og fylgst með fuglunum og litbrigðunum í vatninu er alveg ómetanlegt,“ segir Laufar á vef Reykjavíkurborgar.

Á veitingastaðnum verður hægt að fá léttan hádegisverð, samlokur, kaffi og aðra drykki yfir daginn en á kvöldin verður þar rekinn fullgildur veitingastaður með matseðli. Þá hyggjast þau vera með sértilboð fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar sem ekki eru í Ráðhúsinu og brydda upp á ýmsum nýjungum sem starfsmenn Ráðhússins og nærliggjandi stofnana Reykjavíkurborgar geta nýtt sér