*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 22. september 2019 13:06

Taka vörumerkið aftur til sín

Birna Ósk Einarsdóttir, segir að ákvörðun Icelandair um að skipta um auglýsingastofu hafi ekkert haft með fyrra starf nýs markaðsstjóra að gera heldur hafi verið kominn tími á breytingar.

Ástgeir Ólafsson
Eyþór Árnason

Greint var frá því í byrjun mánaðarins að Icelandair hafði lokið viðskiptum sínum við Íslensku auglýsingastofuna eftir ríflega þriggja áratuga samstarf og samið við Hvíta húsið en Gísli S. Brynjólfsson, sem nýlega tók við stöðu markaðsstjóra Icelandair, var áður framkvæmdastjóri og einn af eigendum Hvíta hússins. Að sögn Birnu Óskar Einarsdóttur, framkvæmdastjóra, sölu- og markaðssviðs Icelandair Group hafði ákvörðunin ekkert með fyrri tengsl Gísla að gera heldur hafi einfaldlega verið kominn tími á breytingar.

„Við höfum átt farsælt samstarf við Íslensku auglýsingastofuna í mörg ár og afrakstur þess samstarfs er ekki einungis margar eftirminnilegar auglýsingaherferðir heldur árangursrík uppbygging á því sterka vörumerki sem Icelandair er í dag. Samhliða öðrum breytingum hjá félaginu var þó að mínu mati tímabært að endurskoða þessi mál. Við leituðum tilboða og hugmynda frá nokkrum auglýsingastofum og eftir nokkurra mánaða faglegt ferli var niðurstaðan að ganga til samninga við Hvíta húsið. Þessi ákvörðun var langt frá því að vera auðveld. Þess má geta að Gísli kom ekki að lokaákvörðuninni heldur var hún tekin af af lykilaðilum úr framkvæmdastjórn félagsins.“

Að sögn Birnu er þetta ekki í fyrsta sinn sem hún kemur að því að slíta margra ára samstarfi við auglýsingastofu. „Hjá Símanum var sambandið við EnnEmm orðið um 16 ára þegar við ákváðum að ljúka því. Það er mín reynsla að þegar samband auglýsingastofu og fyrirtækis er orðið svona langlíft er þekkingin orðin meiri á stofunni en inni í fyrirtækinu og þá finnst mér mikilvægt að fyrirtækið taki vörumerkið og stjórnun þess aftur til sín.“

Mismunandi þarfir á markaðnum

Eins og töluvert hefur verið fjallað um hefur verið mikil samkeppni á flugmarkaði á síðustu misserum og þá sérstaklega í flugi yfir Atlantshafið. Þá hefur eftirspurn eftir ferðum félagsins verið ólík eftir mörkuðum. „Ef við horfum á markaðinn frá Íslandi til Evrópu og Norður-Ameríku þá er meiri eftirspurn til Evrópu en til Norður-Ameríku. Núna er það þannig að Íslendingar eru að fara meira til Evrópu og að Evrópubúar séu frekar að koma til landsins sem gerir það að verkum að verðin hækka í samræmi við þá miklu eftirspurn. Það er hins vegar minni eftirspurn en verið hefur Bandaríkjamegin og því tiltölulega hagkvæmt að fljúga til og frá Bandaríkjunum þessi misseri,“ segir Birna

„Ef maður horfir á markaðinn yfir hafið þá er um örfá flugfélög að ræða í Bandaríkjunum á meðan markaðurinn í Evrópu er mjög sundurleitur með um 100 flugfélög og mikla samkeppni. Ofan á það eru bandarísku félögin meira og minna öll í samstarfi við einhver af evrópsku félögunum. Í þessu mikla framboði   yfir hafið hafa sum þessara félaga byrjað á að bjóða upp á sæti á mjög lágu verði. Við erum einfaldlega verðtakar á þessum markaði eins og staðan er núna, þar sem við erum svo lítil í alþjóðasamhengi, og við þurfum að fylgja öðrum og það er mjög þungbært fyrir félag með okkar strúktúr.“

Birna bætir því við að einn helsti styrkleiki félagsins sé sá hversu leiðakerfi þess er sveigjanlegt.„Til að mæta þessari þróun og til að lágmarka áhrif kyrrsetningar MAX-vélanna á farþega og íslenska ferðaþjónustu höfum við á þessu ári lagt meiri áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands og á móti dregið úr vægi skiptifarþega. Það hefur strax borið árangur en við höfum aldrei flutt fleiri farþega til og frá Íslandi en á þessu ári.

Á öðrum ársfjórðungi fjölgaði farþegum félagsins til Íslands um 39% á milli ára og í júlí og ágúst um rúm 30%. Við munum halda áfram á sömu braut í vetur og getum fært tíðni á milli áfangastaða og lagt áherslu á að nýta flugflotann á leiðum þar sem áætluð eftirspurn er mikil. Flugmarkaðurinn er mjög kvikur og fljótt skipast veður í lofti þannig að áhersla okkar nú er að styrkja innviðina sem gerir félagið enn betur í stakk búið að bregðast hratt við breytingum á markaði.“

Að sögn Birnu er það einnig töluverð áskorun fyrir félagið að Bandaríkjamenn annars vegar og Evrópubúar hins vegar líta ekki sömu augum á þá vöru sem Icelandair býður upp á. „Bandaríkjamenn eru vanari því að meira sé innifalið og meiri þægindum hjá þeim fáu flugfélögum sem þar fljúga, sem kemur mögulega til af því að þegar þeir eru að fara í flug þá eru þeir að fara lengra og þá eru meiri þægindi. Evrópumenn eru hins vegar almennt að ferðast styttra og eru í 3-4 tíma leggjum þannig að þeirra væntingar til þjónustunnar okkar eru allt aðrar. Þeir eru því vanalega mjög hrifnir af vörunni og finnst hún fyrir ofan meðallag á meðan Bandaríkjamönnum finnst hún fyrir neðan meðallag og tengja okkur frekar við lágfargjaldalflugfélag.

Samt sem áður erum við bara með 2-3 vélategundir sem eru allar settar eins upp og með sömu vöruna fyrir alla þar sem við erum að reyna að reka leiðakerfi á eins fáum vélum og hægt er en komast samt á eins á marga staði og hægt er. Það er því svolítið skrýtið að vera með fólk um borð í sömu vél sem er annars vegar mjög ánægt og er að fá þjónustu framar væntingum og svo hins vegar farþega sem finnst þetta fyrir neðan meðallag. Þetta er því frekar merkileg áskorun að reyna að finna staðinn sem hentar öllum þegar maður er í rauninni með þetta módel eins og við að reka allt í kringum það að það er millilending í Keflavík og tengja þannig saman tvær heimsálfur.“

Nánar er rætt við Birnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér