*

mánudagur, 26. október 2020
Innlent 18. janúar 2020 11:05

Taki ekki súrefni úr atvinnulífinu

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, kallar eftir því að stjórnvöld veiti bönkunum betra svigrúm til að styðja við atvinnulífið.

Ástgeir Ólafsson
Eyþór Árnason

Síðastliðið haust skapaðist töluverð umræða um að stóru bankarnir þrír hefðu tekið í bremsuna hvað varðar ný útlán auk þess sem Arion banki hefur gefið það út að bankinn hyggist draga efnahagsreikning sinn saman. Samdráttur í nýjum útlánum bankakerfisins að frádregnum uppgreiðslum nam 28% á fyrstu 11 mánuðum 2019 en stærstur hluti hans kemur til af því að ný útlán til fyrirtækja drógust saman um tæplega helming.

Að mati Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka er aðalástæða samdráttar á nýjum lánum í bankakerfinu sú að minni eftirspurn hafi verið til staðar þó að vissulega hafi bankarnir hafi verið að velja verkefni sín vel.

„Það er alveg ljóst að að það hefur verið samdráttur í útlánum. Eiginfjárstaða banka á eftir að gera það að verkum að útlán verða takmörkuð auðlind. Þess vegna er mikilvægt að þau verkefni sem ráðist sé í séu vel valin en á sama tíma mikilvægt að við höfum samt tækifæri til vinna með og styðja við okkar viðskiptavini sem við leggjum mikla áherslu á. Þrátt fyrir þessa þróun var Íslandsbanki með mesta útlánavöxtinn á þriðja ársfjórðungi.

Varðandi ástæður þess að útlánavöxturinn hafi ekki verið jafn mikill og undanfarin ár, held ég að aðalástæðan sé minni eftirspurn en einnig vegna þess að bankarnir hafi verið að velja verkefnin sín vel. Ég hef alltaf sagt að þegar þú ert með umfram eigið fé þá getur þú tekið þátt í öllum þeim verkefnum sem þú vilt þó þú veljir alltaf verkefnin vel. Þegar þú ert með takmarkaða auðlind verður þú hins vegar að velja þau enn betur.“

Birna segir að á sama tíma og ný útlán hafi dregist saman sé mikilvægt að passa upp á bankarnir taki ekki súrefni úr atvinnulífinu og kallar eftir því að stjórnvöld veiti bönkunum meira svigrúm til þess að styðja við það.

„Það er samfélagsleg ábyrgð fólgin í því að hlutverk banka er að lána út til atvinnulífsins til að halda því gangandi. Ég tek það hlutverk mjög alvarlega og við þurfum að passa upp á það að taka ekki súrefni úr atvinnulífinu. Nú hefur einn af bönkunum tilkynnt að hann ætli að draga úr fyrirtækjaútlánum en það þýðir ekki að bankakerfið í heild sinni geri það líka. Það skiptir því máli að stjórnvöld eins og Seðlabankinn gefi bönkunum það svigrúm sem þeir þurfa til að geta stutt við atvinnulíf í þessu landi. Það er líka mikilvægt að við séum að lána í fjölbreytta starfsemi, bæði varðandi tegund verkefna og staðsetningu og þetta sé góð blanda í okkar lánasafni þar sem það er líka hluti af því að vera með lánasafn af góðum gæðum að það sé vel dreift.“

Nánar er rætt við Birnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér