*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Innlent 23. nóvember 2017 10:40

Takk dagur Fossa tileinkaður Krafti

Í dag renna allar þóknanatekjur Fossa markaða til Krafts, stuðningsfélags ungs fólks með krabbamein.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Einu sinni á ári renna allar þóknanatekjur Fossa markaða til góðs málefnis. Í dag er Takk dagurinn og rennur afraksturinn til Krafts.

„Við gleðjumst yfir því að geta í samstarfi við viðskiptavini okkar staldrað aðeins við og sagt takk fyrir það sem vel er gert,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

„Að þessu sinni tileinkum við Takk dag Fossa Markaða Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þeirra. Í því felst að þóknanatekjur Fossa markaða vegna viðskipta í dag renna til Krafts.“

Að auki taka Kauphöllin, Nasdaq Iceland, og uppgjörsfyrirtækið T plús þátt í deginum með þeim hætti að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa, sem í staðinn renna til stuðningsfélagsins.

Þetta er í þriðja árið í röð sem Takk dagurinn er haldinn hjá Fossum. Í fyrra söfnuðust fjórar milljónir króna þennan dag sem afhentar voru Barnaspítala Hringsins í desember. Árið 2015 naut Mæðrastyrksnefnd góðs af afrakstri dagsins í samstarfi Fossa og viðskiptavina.

Viðskiptavinir með frá upphafi

Haraldur segir að í upphafi hafi starfsfólkið kosið að segja engum fyrirfram frá þessum áformum sínum, að láta tekjur Takk dagsins renna til góðs málefnis sem þau völdu. Framtakið mæltist svo vel fyrir að í fyrra fengu viðskiptavinir að vita að Takk dagurinn væri fram undan svo þeir væru meðvitaðir um að viðskiptum sem beint væri til Fossa þann daginn myndu nýtast til að láta gott af sér leiða.

Síðar fengu allir viðskiptavinirnir upplýsingar um hvað safnaðist, hver myndi njóta góðs af því og þeim boðið að láta sín getið í korti sem fylgdi styrknum til Barnaspítalans.

„Þetta er mjög ánægjulegur dagur hjá okkur í Fossum,“ segir Haraldur. „Við komum saman og ákveðum hvaða málefni skuli styrkt. Kraftur aðstoðar ungt fólk og aðstandendur þess í mjög erfiðum aðstæðum og hjálpar því að yfirstíga erfiðleika þegar alvarleg veikindi ber að garði. Okkur fannst því rétt núna að stíga næsta skref og láta alla vita fyrirfram um hvað Takk dagurinn snýst í ár.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is