Málefni ungmenna í fíknivanda verða í brennidepli á Takk degi Fossa markaðar, sem haldinn er í dag. Í fyrra söfnuðust tæplega 7 milljónir króna.

„Í ár styrkjum við starfsemi sem aðstoðar ungmenni í fíknivanda,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða, um Takk daginn. Hann er í dag, 22. nóvember, haldinn í fjórða sinn, en þá er sá háttur hafður á að þóknanatekjur Fossa markaða vegna viðskipta dagsins renna til góðs málefnis.

Einnig taka þátt í Takk deginum Nasdaq Iceland kauphöllin og uppgjörsfyrirtækið T plús, sem fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa og láta þau þess í stað renna til söfnunarinnar. „Viðbrögð viðskiptavina hafa verið framar vonum síðustu ár og afar ánægjulegt að geta í samstarfi við þá sagt takk fyrir það sem vel er gert,“ segir Haraldur.

Í fyrra rann afrakstur Takk dagsins til Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þess. Þá söfnuðust nærri 6,8 milljónir króna. Árið áður söfnuðust fjórar milljónir sem afhentar voru Barnaspítala hringsins. Árið þar áður naut Mæðrastyrksnefnd góðs af söfnuninni.

Styrkja forvarnir og endurhæfingu
Að þessu sinni rennur söfnunin til „Ég á bara eitt líf“, átaks sem stendur fyrir öflugri forvarnafræðslu um skaðsemi misnotkunar á lyfjum og öðrum fíkniefnum. Segja má að í dag ríki faraldur á Íslandi meðal ungs fólks varðandi neyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum sem leitt hefur af sér fjölda ótímabærra dauðsfalla. Helmingur væntanlegs söfnunarfjár mun jafnframt renna, með milligöngu átaksins, til Bergsins, móttökuog stuðningsseturs, fyrir ungt fólk í vanda.

„Með þessu viljum við bæði hjálpa til við að efla forvarnir og fræða unga fólkið áður en í óefni er komið og aðstoða við að koma upp móttöku- og endurhæfingarúrræði fyrir þá einstaklinga sem lenda út af sporinu,“ segir Haraldur.

Í upphafi var sá háttur hafður á að ekki var greint frá söfnuninni fyrir fram og Fossar létu tekjur Takk dagsins renna til góðs málefnis sem starfsfólk félagsins valdi, en frá 2016 hafa viðskiptavinir hins vegar verið látnir vita af því að Takk dagurinn væri fram undan og þeir upplýstir um að viðskipti sem beint væru til Fossa þann daginn myndu nýtast í þágu góðs málefnis. „Við höfum svo komið upplýsingum um það til allra viðskiptavina um hversu mikið safnaðist og til hvaða málefnis söfnunin rynni. Þeir hafa jafnframt átt þess kosts að láta sín getið í korti sem fylgir styrknum við afhendingu hans.“

Haraldur segir hafa verið stíganda í söfnuninni ár frá ári. „Það hefur verið afskaplega gefandi að festa Takk daginn í sessi sem árlegan viðburð og það er gaman að geta unnið að því í samstarfi við viðskiptavini okkar að styðja við málefni sem eru þörf í okkar samfélagi.“