*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 28. nóvember 2019 07:04

Takk dagurinn styður við Rjóðrið

Allar þóknanatekjur sem falla til í viðskiptum hjá Fossum mörkuðum í dag renna til stuðnings langveikra og fatlaðra barna.

Ritstjórn
Haraldur Þórðarson er forstjóri Fossa markaða sem ásamt samstarfsaðilum halda Takk daginn, sérstakan góðgerðardag þar sem allar þóknanatekjur af viðskiptum fara til valins góðgerðarstarfs, nú í fimmta sinn.
Haraldur Guðjónsson

„Það var mikil samstaða hjá starfsfólki Fossa markaða um að tileinka Takk daginn í ár stuðningi við Rjóðrið, sem gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í lífi fjölskyldna langveikra og fatlaðra barna,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

„Í samstarfi við viðskiptavini okkar og samstarfsaðila viljum við stuðla að því að afrakstur dagsins verði til þess að fjölga leiðum og tækifærum til að styðja við ungmenni sem mæta erfiðum áskorunum í sínu daglega lífi. Oft eru þetta hlutir sem við hin framkvæmum án umhugsunar og teljum sjálfsagða. Því vonum við að framlag Takk dagsins verði hvatning til að opna nýja stuðningsdeild sem er betur sniðin að þörfum eldri barna og ungmenna.“

Takk dagur Fossa markaða er haldinn í fimmta sinn í dag. Þá renna allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins til góðs málefnis, sem að þessu sinni er Rjóðrið, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og fötluð börn á lóð Landspítalans í Kópavogi. Auk Fossa markaða taka Kauphöllin, Nasdaq Iceland og uppgjörsfyrirtækið T plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa, sem í staðinn renna til söfnunarinnar. Þá gefur hönnunar- og auglýsingastofan Tvist vinnu sína sem tengist þessum degi.

Framlagið skiptir sköpum

Í fyrra söfnuðust um 8,2 milljónir króna sem runnu í þjóðarátakið Ég á bara eitt líf og Bergið, móttöku- og stuðningssetur fyrir ungt fólk. Haraldur segir að Takk dagurinn hafi fest sig í sessi og að viðskiptavinir fagni þessu árlega framtaki. Á þessum degi sé tilefni til að gleðjast yfir því að geta staldrað við og lagt eitthvað á vogarskálar þeirra sem eru að vinna að þýðingarmiklum málum.

Reynt sé að velja verkefni þar sem allur ágóði geti skipt sköpum fyrir starfsemina. Til dæmis stóð styrkurinn í fyrra undir kostnaði af heimsóknum í alla grunnskóla landsins þar sem rætt var við börn um hættuna af misnotkun lyfja og fræðslu almennings á umfangi vandans sem birtist meðal annars í ótímabærum dauðsföllum. Þá gerði framlagið Berginu kleift að hefja starfsemi sína á Suðurgötu á þessu ári.

„Rjóðrið fagnar á þessu ári fimmtán ára starfsafmæli og höfum við fengið innsýn í starfsemina sem þar fer fram. Það var í raun einstakt að verða vitni að jákvæðninni sem ríkti hjá starfsfólki og börnunum sem þar dvöldu, þrátt fyrir að aðstæður séu oft erfiðar,“ segir Haraldur.

„Að halda svona starfsemi gangandi og þróa í takt við kröfur samtímans er auðvitað mikil áskorun. Þótt Rjóðrið sé hluti af kvenna- og barnasviði Landspítalans gegna frjáls framlög gríðarmiklu hlutverki. Við viljum létta stjórnendum þetta verk svo tími og orka starfsfólks fari að mestu í samskipti og aðstoð við börn og fjölskyldur þeirra. Það var ástæða þess að hópur fagfólks tók sig til og stofnaði Rjóðrið upphaflega.“

Stuðningsdeild fyrir eldri börn

Í Rjóðrinu geta börn yngri en 18 ára dvalið í allt að sjö daga í mánuði. Öll þurfa þau mikla umönnun og hjúkrun en einnig afþreyingu. Börnin eru á ólíkum aldri og hafa því mismunandi þarfir þótt reynt sé að mæta hverjum aldurshópi fyrir sig. Eins og staðan er í dag vantar betri aðstöðu fyrir eldri börnin, þau sem hafa náð 18 ára aldri. Með afrakstri Takk dagsins í ár er vonast til að söfnunarféð efli það átak sem þarf til að opna nýja stuðningsdeild sem mætir betur þörfum eldri barna sem sækja Rjóðrið.

„Við gerum okkur grein fyrir því að umfangsmeiri rekstur kostar meira en viljum samt benda á þennan möguleika, að söfnunarfé Takk dagsins verði nokkurs konar stofnframlag til að ýta þessu verkefni betur úr vör. Þess vegna standa vonir okkar til að framlag Takk dagsins verði hvatning til að stíga þetta skref til fulls. En auðvitað er það á endanum í höndum stjórnenda Rjóðursins að ákveða hvernig þessir peningar nýtast best þessu unga fólki og fjölskyldum þeirra,“ segir Haraldur að lokum.